<$BlogRSDURL$>
     ____.       __                            .__ 
    |    | _=_=_/  |_ __ __  ____  __ _____  __|__|
    |    |/  _ \   __\  |  \/    \|  |  \  \/  /  |
/\__|    (  <_> )  | |  |  /   |  \  |  />    <|  |
\________|\____/|__| |____/|___|  /____//__/\_ \__|
                                \/            \/   
Wednesday, May 11, 2005
 
Hið blessaða beina lýðræði
Nú er bannað að reykja á börum og veitingastöðum hér í Austin, síðan í fyrradag. Þykir það stórsigur fyrir þá sem hafa þetta athæfi samborgara sinna á hornum sér, og fyrir þá sem berjast fyrir svokölluðu beinu lýðræði. Það var nefnilega almenn atkvæðagreiðsla um málið og 52% þeirra sem kusu vildu banna eigendum veitingastaða að leyfa reykingar í húsakynnum sínum. Það ber auðvitað að athuga að kjörsókn var ekki nema 16%.

Það gefur strax augaleið að þeir sem almennt skipta sér hvað mest af því sem aðrir eru að athafast eru fyrstir á kjörstað. Og þeir sem að öllu jöfnu virða rétt annara til að vera í friði þeir jafnvel vissu ekkert af atkvæðagreiðslunni, né af umræddu banni. Það vissi t.d. enginn á mínum vinnustað af þessu fyrr en daginn eftir atkvæðagreiðslu.

Svona er hið blessaða beina lýðræði. Lítil 8% kjörgengra geta sett hinum 92%, svo og ókjörgengum, hvaða reglur sem er. Ef eitthvað athæfi er nægilega óvinsælt meðal þeirra sem ekkert skárra hafa með tímann að gera en að ærast yfir athæfi náungans, þá er ekkert í vegi fyrir að það verði bannað. Nema auðvitað hinir sem nægilega lítið hafa annað með tímann að gera en að verja sig og aðra gegn slettirekum.

Það ber að benda á að eigendur veitingahúsa eru oft fyrstu kynslóðar innflytjendur, þar af leiðandi ekki ríkisborgarar og ekki með kosningarétt.

En skiptir þetta máli fyrir þá sem ekki reykja á annað borð? Ójá. Þetta er ekki spurning um reykingar og ekki reykingar, heldur hvort ríkisvaldið hafi á annað borð leyfi til að banna mönnum að ráðstafa tíma sínum og eigum eftir eigin höfði. Um leið og maður gefur eftir það leyfi, þá er maður búinn að samþykkja fasisma.

Einnig hefur þetta bann í för með sér ýmsa erfiðleika. Þetta setur til dæmis á hausinn staði eins og Red Fez, þar sem kúnnar reykja úr vatnspípum alls konar tóbak og ilmjurtir. Það gerir líka erfitt að reka staði sem sérstaklega eru reyklausir, því nú er öll samkeppnin orðin reyklaus hvort eð er. Að síðustu er auðvitað eftirlitið með þessu öllusaman, sem er kostnaðarsamt. Nú liggja allir veitingastaðir undir grun, og til að fylgja banninu eftir þarf að senda stormsveitir á staðinn til að sekta og handtaka þá sem það brjóta.

Hið fullkomna beina lýðræði væri auðvitað að leyfa hverjum og einum að kjósa með fótunum veitingahús eftir hvort þar eru reykingar leyfðar eða ekki, og að leyfa hverjum og einum eiganda að kjósa hvort á sínu veitingahúsi skuli reykt eður ei. Þá væru allir ánægðir nema að sjálfsögðu þeir sem ekki þola að sjá náungann í friði.
Friday, April 22, 2005
 
Munurinn á lögum og reglum
Oft hittir maður menn sem ekki kunna mun á lögum og reglugerðum. Vissulega er það skiljanlegt því menn nota oft hvort orðið sem er yfir bæði hugtökin, auk þess sem löggjafinn setur jú lög samkvæmt kenningunni, þó í praxis sé nærri allt sem kemur frá löggjafanum þessa dagana reglugerðir.

Hér er skilgreiningin:

Lög eru hlutlæg, og því nauðsynlega rökrétt, og eiga við alla menn á öllum stundum. Reglugerðir geta stangast á og geta átt við suma menn á ákveðnum tímum.

Oftast eru því lög höft á ríkisvald, sett til að koma í veg fyrir að valdinu sé beitt gegn borgurunum. Reglur eru hins vegar höft á borgarana.

Þannig eru lög sett svo enginn maður geti ráðið yfir öðrum heldur ráði lögin yfir öllum. Reglur eru settar til að sumir menn geti ráðið yfir öðrum.

Í frjálsu samfélagi þar sem lögræði er, þar eiga lögin alltaf að ráða fyrst. Reglugerðir sem stangast á við lögin hafa því yfir frjálsum mönnum ekkert vald.
Wednesday, November 03, 2004
 
John Doe Tapar Kosningum
Nú eru kosningar loksins, loksins yfirstaðnar. Það er með ólíkindum hvað maður getur fengið leið á þessu, sérstaklega þegar valið stendur milli ills og verra.

Kosningarnar fóru eins og ég hafði spáð, Bush vann. Ég þykist líka vita hvers vegna. Það er auðvelt að gelta að menn hafi kosið af ótta og heimsku, en málið er í raun einfaldara og rökréttara en það.

1. John Kerry eða John Doe?

Ég vil meina að John Kerry hafi tapað fyrst og fremst vegna þess að kosningarnar snérust alls ekki um hann. Þær voru alfarið um George Bush. Nær allir sem hafa sagt mér að þeir hafi kosið John Kerry kusu hann af því að þeir vildu ekki Bush. Þeir hefðu væntanlega kosið á sama veg (ekki Bush), sama hvort John eða séra John hafi verið í framboði. Margir héðan segjast hafa kosið Badnarik (hann er frá Austin) af sömu ástæðu. Hann er ekki Bush. En málið er að maður verður ekki forseti fyrir það eitt að vera ekki Bush. Clinton vann af því að hann var Clinton, ekki af því að hann var ekki Bush. Reagan sömuleiðis hafði sigur af eigin dáðum, ekki fyrir það að vera ekki Carter.

2. Veikur flokkur

Repúblikanaflokkurinn er sterkari nú en nokkru sinni fyrr. Það veit ekki á gott, en það er einna helst vegna þess að demókratar eru veikir og bjóða ekki samkeppnishæfa leiðtoga. Þá skortir ekki aðeins leiðtoga, heldur leið til að toga. Ég er enn ekki með á hreinu hver afstaða flokksins er til helstu málefna, jafnvel eftir margra mánaða kosningabaráttu. Það er þó ljóst að góður meirihluti flokksmanna er ósammála forsetaefninu þegar kemur að stríðsrekstri. Þeir verða að styrkja sína stöðu og samstöðu ef þessi elsti stjórnmálaflokkur Bandaríkjanna ætlar að halda velli.

Það sýnir sig best í því að John Kerry var besti frambjóðandi til forseta sem hægt var að finna innan flokksins. Betur má ef duga skal. En raddir sem maður heyrir um næsta frambjóðanda segja að það verði líklega Hillary Clinton. Ég tel að hún geti heldur ekki verið forseti. Hún er of mikil skessa til þess. Og sérstaklega á hún ekki séns ef frambjóðandi repúblikana á móti henni verður Rudolph Giuliani.

Þeir einu demókratar sem hafa orðið forsetar undanfarna hálfa öld hafa verið góðgeðjaðir ríkisstjórar úr suðurríkjunum. Meðan demókratar halda áfram að tilnefna snobbaða og fúllynda öldungardeildarþingmenn þá verður þeim ekkert ágengt.


Monday, October 25, 2004
 
Boð, bönn og réttindi
Pólitík hefur verið ansi mikið í umræðunni hér í bandaríkjunum undanfarið, einkum vegna forsetakosninga. Sem Íslendingur hefur maður vanist því að pólitík sé alltaf stanslaust í umræðunni, en svo er þó ekki hér. Bandaríkjamenn (a.m.k í kringum mig) hafa almennt lítinn áhuga á pólitík svona dagsdaglega, nema rétt fyrir kosningar.

Það sem maður tekur eftir í umræðunni er að menn skipta sér í lið eftir því hvað þeim þykir að ætti að vera bannað og hvað leyft, án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna það ætti að vera svo. Fóstureyðingar eru vondar, það á að banna þær. Nei, valfrelsi er gott, það á að leyfa fóstureyðingar.

Báðir stóru flokkarnir eru kófdrukknir á svona hugsanagangi. Að stjórnmál eigi að snúast um ákvarðanir fyrir allra hönd, að boða og banna, deila og drottna. Það er þó hægt að hugga sig við að flokkarnir eru yfirleitt á öndverðum meiði með hvað á að banna og hvað leyfa, þannig að oftast nær verður hvorugt úr og engin ákvörðun tekin. Þá gerist það sem er auðvitað æskilegast, sem er að hver og einn borgari tekur ákvarðanir fyrir sína eigin hönd.

Það skuggalegasta er þó að flokkarnir eru stundum sammála um boðin og bönnin. Þá er líka voðinn vís, því ekkert stendur í vegi fyrir því að sú sameiginlega skoðun verði að lögum. Sem dæmi má taka að báðir flokkarnir eru fylgjandi takmörkunum á fjármögnun kosningabaráttu. Þ.e.a.s. að ríkið sjálft ráði því hver megi fjármagna kosningabaráttu flokkanna og í hvaða mæli.

Maður þarf ekki að elta þá hugsun langt til að sjá skuggahliðina. Enda hefur sú hlið þegar komið upp á teninginn. Þegar mönnum er bannað að leggja fé beint til liðs við flokkinn sinn, þá leita þeir annarra leiða, og setja t.d. auglýsingar sjálfir í fjölmiðla, búa til "heimildarmyndir" og þessháttar. Lausnin á þessu "vandamáli" verður síðan að banna það, og þegar menn leita enn annarra leiða til að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri, til dæmis með vefsíðum eða tölvuleikjum, þá verður það bannað líka.

Hvernig þetta fer fram er eins og beint út úr 1984 eftir George Orwell. Lögin sem sérstaklega leyfa pólitískar sjónvarpsauglýsingar eru grafin í skattalögum, og má finna í grein 527 laga um fjármögnun kosningabaráttu. Þess vegna, þegar pólitíkusar og fréttaflytjendur tala um menn sem auglýsa pólitíska skoðun í sjónvarpinu, kalla þeir þá "527s". Nú er svo komið að slíkar "fimmtuttuguogsjöur" eru yfirleitt með neikvæðan boðskap, þ.e.a.s. benda á eitthvað hjá pólitískum andstæðingum sínum sem betur mætti fara. Fimmtuttuguogsjö er þá orðið samheiti við skítkast, sem er vont, og verður þar af leiðandi að banna. Það eina sem til þarf til að þagga menn niður er að afnema undantekningu númer 527 í fyrrnefndum lögum.

Það sem gleymist algerlega er að löggjafinn hefur nákvæmlega ekkert leyfi til að boða og banna. Í stofnskjali Bandarískra laga, stjórnarskránni, er meira að segja sérstaklega kveðið á um að löggjafinn skuli engin lög setja sem minnka rétt manna til að segja það sem þeim sýnist.

Þetta hefur algerlega gleymst. Stjórnmálaflokkarnir beinlínis keppast við að setja boð og bönn þrátt fyrir að stjórnarskrá Bandaríkjanna sé augljóslega rituð með það að viðmiði að ríkisvaldið skuli ekki boða og banna, heldur vernda réttindi manna.

Í praxis þýðir þetta að það á ekkert að vera bannað í Bandaríkjunum nema það brjóti sérstaklega á rétti einhvers. Sá einhver þarf líka að vera raunverulegur einstaklingur, með réttindi undir stjórnarskránni, en ekki þrýstihópur eða stjórnmálaflokkur með ímynduð réttindi. Sem sagt, réttindi manna eru talin upp í svokölluðum "bill of rights", og það skal vera hlutverk ríkisins að vernda þau réttindi. Þegar eitthvað mál kemur upp á að spyrja hvers réttindi eru brotin í málinu. Ef stjórnarskrárbundin réttindi einskis manns eru brotin, þá skal málinu sleppt.

Ef farið væri eftir þessu til hlítar, þá væri sáralítið fyrir stjórnmálamenn að gera nema að sjá fyrir rekstri dómstóla, lögreglu, löggjafans sjálfs, o.s.frv. En fyrst að það er fordæmi fyrir því að stjórnarskráin sé hunsuð, þá sjá óprúttnir einstaklingar sér í sífellu færi á því að krækja sér í völd. Það þarf því ekki að spyrja að því hvers konar menn leiðast út í pólitík, og þar af leiðandi ekki heldur að því hvers vegna lög og regla eru á leiðinni í vaskinn.


Thursday, October 21, 2004
 
Sá sem þorir ekki að gera neitt af ótta við að hann geti það ekki, hann getur ekkert vegna þess að hann þorir ekkert að gera.

Ég sjálfur, 21. okt 2004

Friday, June 04, 2004
 
Það er ekki oft sem ég hef eitthvað út á athæfi frjálshyggjumanna að setja, en það kemur þó fyrir. Frjálshyggjufélagið var að senda frá sér ályktun sem mér þykir óviðeigandi og vanhugsuð:

http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=alyktun&id=27

Sendi ég þeim eftirfarandi bréf um málið:

Hér verð ég í fyrsta sinn að vera algerlega ósammála ályktun frá félaginu. En það er varla furða að ranglega sé ályktað ef illa er athugað. Ég sendi ykkur hér því viðeigandi athugasemdir.

Athuga ber eftirfarandi atriði:

* Ekki er tekið fram í ályktuninni hver mannréttindabrotin tíðræddu eru nákvæmlega né er sýnt fram á að réttlát málsmeðferð sé ekki nú þegar í framkvæmd. Það gerir ályktunina nokkuð tannlausa því ekki er um að ræða skýrt mál þar sem allar breytur eru þekktar.

* Umræddir fangar eru ekki saklausir borgarar og fangarar þeirra eru ekki lögregla. Allt eru þetta menn teknir höndum af herliði við það athæfi að ráðast á umrætt herlið. Hér er því ekki um geðþóttahandtökur að ræða, og að öllu jöfnu hefðu þessir skæruliðar fallið í átökum við Bandaríkjaher ef ekki væri fyrir aðhaldssemi þess hers. Það er fyllilega óviðeigandi að fá móðursýkiskast ef upp kemst að einhverjir hafi orðið fyrir ónotum við það að ráðast á Bandarískan her. Það nefnilega gefur augaleið að það er ekki hættulaust athæfi.

* Dauðarefsingar eru ekki óréttlætanlegar. Morð eru óréttlætanleg. Vissulega eru refsingar að nokkru tagi með öllu óviðeigandi ef vafi leikur mögulega á um sekt manns, en ef sýnt hefur verið fram á morð með óyggjandi hætti svo ekki megi um efast þá getur dauðarefsing verið viðeigandi og réttlát. Morðingi afsalar sér lífsréttinum. Það er nákvæmlega það sem réttlæti merkir. En hvaða máli skiptir okkur annars líf dæmds morðingja? Hvers virði er það og hverjum? Og hvernig talar maður máli hans án þess að skyrpa í eigið andlit? Það mætti jafnvel álykta sem svo að dauðarefsingar séu ásættanlegri og siðmenntaðri en að senda menn í lífstíðarþrældóm.

* Talandi þá einmitt um lífstíðarþrældóm, þá vekur það athygli að enginn hvetur til mótmæla gegn mannréttindabrotum annars staðar á sömu eyju aðeins steinsnar frá fangabúðum Bandaríkjahers. Nefnilega eru allir íbúar Kúbu í ævilöngu fangelsi. Ekki nóg með það heldur er alls ekki á dagskrá að ákæra það fólk fyrir neina glæpi eða sleppa því frjálsu ella. Það fólk hefur allt verið tekið höndum saklaust, af geðþótta og án dóms og laga. Þætti mér gaman að sjá ályktun frá Frjálshyggjufélaginu um það, jafnvel þó það mál sé ekki stanslaust í æsifréttunum.

* Ályktunin gerir ráð fyrir að Bandaríkjastjórn ekki einungis taki mark á mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar, heldur að hún ætti að taka tillit til þeirra mótmæla. Það sæmir alls ekki frjálshyggjumönnum að gefa í skyn að það falli undir réttmætt hlutverk ríkisvaldsins að sóa tíma og skattfé í að hlusta á væl í ríkisstjórnum um allar trissur. Bandaríkjastjórn þjónar bandarískum skattgreiðendum og ber beinlínis skylda til að hunsa mótmæli og tilsagnir annarra en þeirra. Ennfremur fellur það ekki í réttmætan verkahring ríkisstjórnar Íslands að standa í mótmælum sem menn eru þá skyldaðir til að fjármagna jafnvel þó þeir séu ósammála. Borgararnir eru fullfærir um að mótmæla sjálfir hverju sem þeim sýnist.

Ætlast menn virkilega til þess að fólk trúi því að félagið sendi frá sér þessa ályktun af annarri ástæðu en þeirri að málefnið hefur verið í fréttum undanfarið og félagið vill þannig vekja á sér athygli með því að vera memm? Og ætlast menn til að hægt sé að vinna sigur í stríði gegn hryðjuverkum þegar við tölum sjálf máli óvinarins oftar en okkar eigin?

Fleira var það ekki. Ég vona að þetta komi ykkur að einhverju gagni.

Kveðja,
Rúnar Bjarnason

Thursday, April 15, 2004
 
Grein eftir mig á vefi frjálshyggjufélagsins
Greinin fjallar um frumvarp dómsmálaráðherra til breytinga á lögum um útlendinga og undirskriftarlista gegn því frumvarpi.


Powered by Blogger