<$BlogRSDURL$>
     ____.       __                            .__ 
    |    | _=_=_/  |_ __ __  ____  __ _____  __|__|
    |    |/  _ \   __\  |  \/    \|  |  \  \/  /  |
/\__|    (  <_> )  | |  |  /   |  \  |  />    <|  |
\________|\____/|__| |____/|___|  /____//__/\_ \__|
                                \/            \/   
Friday, June 04, 2004
 
Það er ekki oft sem ég hef eitthvað út á athæfi frjálshyggjumanna að setja, en það kemur þó fyrir. Frjálshyggjufélagið var að senda frá sér ályktun sem mér þykir óviðeigandi og vanhugsuð:

http://www.frjalshyggja.is/?gluggi=alyktun&id=27

Sendi ég þeim eftirfarandi bréf um málið:

Hér verð ég í fyrsta sinn að vera algerlega ósammála ályktun frá félaginu. En það er varla furða að ranglega sé ályktað ef illa er athugað. Ég sendi ykkur hér því viðeigandi athugasemdir.

Athuga ber eftirfarandi atriði:

* Ekki er tekið fram í ályktuninni hver mannréttindabrotin tíðræddu eru nákvæmlega né er sýnt fram á að réttlát málsmeðferð sé ekki nú þegar í framkvæmd. Það gerir ályktunina nokkuð tannlausa því ekki er um að ræða skýrt mál þar sem allar breytur eru þekktar.

* Umræddir fangar eru ekki saklausir borgarar og fangarar þeirra eru ekki lögregla. Allt eru þetta menn teknir höndum af herliði við það athæfi að ráðast á umrætt herlið. Hér er því ekki um geðþóttahandtökur að ræða, og að öllu jöfnu hefðu þessir skæruliðar fallið í átökum við Bandaríkjaher ef ekki væri fyrir aðhaldssemi þess hers. Það er fyllilega óviðeigandi að fá móðursýkiskast ef upp kemst að einhverjir hafi orðið fyrir ónotum við það að ráðast á Bandarískan her. Það nefnilega gefur augaleið að það er ekki hættulaust athæfi.

* Dauðarefsingar eru ekki óréttlætanlegar. Morð eru óréttlætanleg. Vissulega eru refsingar að nokkru tagi með öllu óviðeigandi ef vafi leikur mögulega á um sekt manns, en ef sýnt hefur verið fram á morð með óyggjandi hætti svo ekki megi um efast þá getur dauðarefsing verið viðeigandi og réttlát. Morðingi afsalar sér lífsréttinum. Það er nákvæmlega það sem réttlæti merkir. En hvaða máli skiptir okkur annars líf dæmds morðingja? Hvers virði er það og hverjum? Og hvernig talar maður máli hans án þess að skyrpa í eigið andlit? Það mætti jafnvel álykta sem svo að dauðarefsingar séu ásættanlegri og siðmenntaðri en að senda menn í lífstíðarþrældóm.

* Talandi þá einmitt um lífstíðarþrældóm, þá vekur það athygli að enginn hvetur til mótmæla gegn mannréttindabrotum annars staðar á sömu eyju aðeins steinsnar frá fangabúðum Bandaríkjahers. Nefnilega eru allir íbúar Kúbu í ævilöngu fangelsi. Ekki nóg með það heldur er alls ekki á dagskrá að ákæra það fólk fyrir neina glæpi eða sleppa því frjálsu ella. Það fólk hefur allt verið tekið höndum saklaust, af geðþótta og án dóms og laga. Þætti mér gaman að sjá ályktun frá Frjálshyggjufélaginu um það, jafnvel þó það mál sé ekki stanslaust í æsifréttunum.

* Ályktunin gerir ráð fyrir að Bandaríkjastjórn ekki einungis taki mark á mótmælum íslensku ríkisstjórnarinnar, heldur að hún ætti að taka tillit til þeirra mótmæla. Það sæmir alls ekki frjálshyggjumönnum að gefa í skyn að það falli undir réttmætt hlutverk ríkisvaldsins að sóa tíma og skattfé í að hlusta á væl í ríkisstjórnum um allar trissur. Bandaríkjastjórn þjónar bandarískum skattgreiðendum og ber beinlínis skylda til að hunsa mótmæli og tilsagnir annarra en þeirra. Ennfremur fellur það ekki í réttmætan verkahring ríkisstjórnar Íslands að standa í mótmælum sem menn eru þá skyldaðir til að fjármagna jafnvel þó þeir séu ósammála. Borgararnir eru fullfærir um að mótmæla sjálfir hverju sem þeim sýnist.

Ætlast menn virkilega til þess að fólk trúi því að félagið sendi frá sér þessa ályktun af annarri ástæðu en þeirri að málefnið hefur verið í fréttum undanfarið og félagið vill þannig vekja á sér athygli með því að vera memm? Og ætlast menn til að hægt sé að vinna sigur í stríði gegn hryðjuverkum þegar við tölum sjálf máli óvinarins oftar en okkar eigin?

Fleira var það ekki. Ég vona að þetta komi ykkur að einhverju gagni.

Kveðja,
Rúnar Bjarnason


Powered by Blogger