<$BlogRSDURL$>
     ____.       __                            .__ 
    |    | _=_=_/  |_ __ __  ____  __ _____  __|__|
    |    |/  _ \   __\  |  \/    \|  |  \  \/  /  |
/\__|    (  <_> )  | |  |  /   |  \  |  />    <|  |
\________|\____/|__| |____/|___|  /____//__/\_ \__|
                                \/            \/   
Monday, October 25, 2004
 
Boð, bönn og réttindi
Pólitík hefur verið ansi mikið í umræðunni hér í bandaríkjunum undanfarið, einkum vegna forsetakosninga. Sem Íslendingur hefur maður vanist því að pólitík sé alltaf stanslaust í umræðunni, en svo er þó ekki hér. Bandaríkjamenn (a.m.k í kringum mig) hafa almennt lítinn áhuga á pólitík svona dagsdaglega, nema rétt fyrir kosningar.

Það sem maður tekur eftir í umræðunni er að menn skipta sér í lið eftir því hvað þeim þykir að ætti að vera bannað og hvað leyft, án þess þó að vita nákvæmlega hvers vegna það ætti að vera svo. Fóstureyðingar eru vondar, það á að banna þær. Nei, valfrelsi er gott, það á að leyfa fóstureyðingar.

Báðir stóru flokkarnir eru kófdrukknir á svona hugsanagangi. Að stjórnmál eigi að snúast um ákvarðanir fyrir allra hönd, að boða og banna, deila og drottna. Það er þó hægt að hugga sig við að flokkarnir eru yfirleitt á öndverðum meiði með hvað á að banna og hvað leyfa, þannig að oftast nær verður hvorugt úr og engin ákvörðun tekin. Þá gerist það sem er auðvitað æskilegast, sem er að hver og einn borgari tekur ákvarðanir fyrir sína eigin hönd.

Það skuggalegasta er þó að flokkarnir eru stundum sammála um boðin og bönnin. Þá er líka voðinn vís, því ekkert stendur í vegi fyrir því að sú sameiginlega skoðun verði að lögum. Sem dæmi má taka að báðir flokkarnir eru fylgjandi takmörkunum á fjármögnun kosningabaráttu. Þ.e.a.s. að ríkið sjálft ráði því hver megi fjármagna kosningabaráttu flokkanna og í hvaða mæli.

Maður þarf ekki að elta þá hugsun langt til að sjá skuggahliðina. Enda hefur sú hlið þegar komið upp á teninginn. Þegar mönnum er bannað að leggja fé beint til liðs við flokkinn sinn, þá leita þeir annarra leiða, og setja t.d. auglýsingar sjálfir í fjölmiðla, búa til "heimildarmyndir" og þessháttar. Lausnin á þessu "vandamáli" verður síðan að banna það, og þegar menn leita enn annarra leiða til að koma pólitískum skoðunum sínum á framfæri, til dæmis með vefsíðum eða tölvuleikjum, þá verður það bannað líka.

Hvernig þetta fer fram er eins og beint út úr 1984 eftir George Orwell. Lögin sem sérstaklega leyfa pólitískar sjónvarpsauglýsingar eru grafin í skattalögum, og má finna í grein 527 laga um fjármögnun kosningabaráttu. Þess vegna, þegar pólitíkusar og fréttaflytjendur tala um menn sem auglýsa pólitíska skoðun í sjónvarpinu, kalla þeir þá "527s". Nú er svo komið að slíkar "fimmtuttuguogsjöur" eru yfirleitt með neikvæðan boðskap, þ.e.a.s. benda á eitthvað hjá pólitískum andstæðingum sínum sem betur mætti fara. Fimmtuttuguogsjö er þá orðið samheiti við skítkast, sem er vont, og verður þar af leiðandi að banna. Það eina sem til þarf til að þagga menn niður er að afnema undantekningu númer 527 í fyrrnefndum lögum.

Það sem gleymist algerlega er að löggjafinn hefur nákvæmlega ekkert leyfi til að boða og banna. Í stofnskjali Bandarískra laga, stjórnarskránni, er meira að segja sérstaklega kveðið á um að löggjafinn skuli engin lög setja sem minnka rétt manna til að segja það sem þeim sýnist.

Þetta hefur algerlega gleymst. Stjórnmálaflokkarnir beinlínis keppast við að setja boð og bönn þrátt fyrir að stjórnarskrá Bandaríkjanna sé augljóslega rituð með það að viðmiði að ríkisvaldið skuli ekki boða og banna, heldur vernda réttindi manna.

Í praxis þýðir þetta að það á ekkert að vera bannað í Bandaríkjunum nema það brjóti sérstaklega á rétti einhvers. Sá einhver þarf líka að vera raunverulegur einstaklingur, með réttindi undir stjórnarskránni, en ekki þrýstihópur eða stjórnmálaflokkur með ímynduð réttindi. Sem sagt, réttindi manna eru talin upp í svokölluðum "bill of rights", og það skal vera hlutverk ríkisins að vernda þau réttindi. Þegar eitthvað mál kemur upp á að spyrja hvers réttindi eru brotin í málinu. Ef stjórnarskrárbundin réttindi einskis manns eru brotin, þá skal málinu sleppt.

Ef farið væri eftir þessu til hlítar, þá væri sáralítið fyrir stjórnmálamenn að gera nema að sjá fyrir rekstri dómstóla, lögreglu, löggjafans sjálfs, o.s.frv. En fyrst að það er fordæmi fyrir því að stjórnarskráin sé hunsuð, þá sjá óprúttnir einstaklingar sér í sífellu færi á því að krækja sér í völd. Það þarf því ekki að spyrja að því hvers konar menn leiðast út í pólitík, og þar af leiðandi ekki heldur að því hvers vegna lög og regla eru á leiðinni í vaskinn.


Thursday, October 21, 2004
 
Sá sem þorir ekki að gera neitt af ótta við að hann geti það ekki, hann getur ekkert vegna þess að hann þorir ekkert að gera.

Ég sjálfur, 21. okt 2004


Powered by Blogger