<$BlogRSDURL$>
     ____.       __                            .__ 
    |    | _=_=_/  |_ __ __  ____  __ _____  __|__|
    |    |/  _ \   __\  |  \/    \|  |  \  \/  /  |
/\__|    (  <_> )  | |  |  /   |  \  |  />    <|  |
\________|\____/|__| |____/|___|  /____//__/\_ \__|
                                \/            \/   
Wednesday, May 11, 2005
 
Hið blessaða beina lýðræði
Nú er bannað að reykja á börum og veitingastöðum hér í Austin, síðan í fyrradag. Þykir það stórsigur fyrir þá sem hafa þetta athæfi samborgara sinna á hornum sér, og fyrir þá sem berjast fyrir svokölluðu beinu lýðræði. Það var nefnilega almenn atkvæðagreiðsla um málið og 52% þeirra sem kusu vildu banna eigendum veitingastaða að leyfa reykingar í húsakynnum sínum. Það ber auðvitað að athuga að kjörsókn var ekki nema 16%.

Það gefur strax augaleið að þeir sem almennt skipta sér hvað mest af því sem aðrir eru að athafast eru fyrstir á kjörstað. Og þeir sem að öllu jöfnu virða rétt annara til að vera í friði þeir jafnvel vissu ekkert af atkvæðagreiðslunni, né af umræddu banni. Það vissi t.d. enginn á mínum vinnustað af þessu fyrr en daginn eftir atkvæðagreiðslu.

Svona er hið blessaða beina lýðræði. Lítil 8% kjörgengra geta sett hinum 92%, svo og ókjörgengum, hvaða reglur sem er. Ef eitthvað athæfi er nægilega óvinsælt meðal þeirra sem ekkert skárra hafa með tímann að gera en að ærast yfir athæfi náungans, þá er ekkert í vegi fyrir að það verði bannað. Nema auðvitað hinir sem nægilega lítið hafa annað með tímann að gera en að verja sig og aðra gegn slettirekum.

Það ber að benda á að eigendur veitingahúsa eru oft fyrstu kynslóðar innflytjendur, þar af leiðandi ekki ríkisborgarar og ekki með kosningarétt.

En skiptir þetta máli fyrir þá sem ekki reykja á annað borð? Ójá. Þetta er ekki spurning um reykingar og ekki reykingar, heldur hvort ríkisvaldið hafi á annað borð leyfi til að banna mönnum að ráðstafa tíma sínum og eigum eftir eigin höfði. Um leið og maður gefur eftir það leyfi, þá er maður búinn að samþykkja fasisma.

Einnig hefur þetta bann í för með sér ýmsa erfiðleika. Þetta setur til dæmis á hausinn staði eins og Red Fez, þar sem kúnnar reykja úr vatnspípum alls konar tóbak og ilmjurtir. Það gerir líka erfitt að reka staði sem sérstaklega eru reyklausir, því nú er öll samkeppnin orðin reyklaus hvort eð er. Að síðustu er auðvitað eftirlitið með þessu öllusaman, sem er kostnaðarsamt. Nú liggja allir veitingastaðir undir grun, og til að fylgja banninu eftir þarf að senda stormsveitir á staðinn til að sekta og handtaka þá sem það brjóta.

Hið fullkomna beina lýðræði væri auðvitað að leyfa hverjum og einum að kjósa með fótunum veitingahús eftir hvort þar eru reykingar leyfðar eða ekki, og að leyfa hverjum og einum eiganda að kjósa hvort á sínu veitingahúsi skuli reykt eður ei. Þá væru allir ánægðir nema að sjálfsögðu þeir sem ekki þola að sjá náungann í friði.

Powered by Blogger