<$BlogRSDURL$>
     ____.       __                            .__ 
    |    | _=_=_/  |_ __ __  ____  __ _____  __|__|
    |    |/  _ \   __\  |  \/    \|  |  \  \/  /  |
/\__|    (  <_> )  | |  |  /   |  \  |  />    <|  |
\________|\____/|__| |____/|___|  /____//__/\_ \__|
                                \/            \/   
Tuesday, February 17, 2004
 
Hvers konar frelsi?
Í umræðu um stjórnspeki og hugsjónir undanfarið hefur vakið eftirtekt hversu oft menn bregða fram orðinu frelsi. Enn athyglisverðara er hversu misleit merking þess orðs er eftir því hver notar það. Allir eru þó sammála um að frelsið er eitthvað eftirsóknarvert. Báðir stærstu stjórnmálaflokkarnir, Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkur, nota umrætt orð óspart. Til að mynda er orðið sett upp með flottri grafík á vefsíðum beggja flokka eða fylgismanna þeirra. Þó er næsta víst að merkingin er ekki sú sama.

Tvíræðni orða og ótvíræðni hugtaka

Hér ber að gera greinamun á orðum og hugtökum. Þ.e.a.s. að orð eru notuð til að lýsa hugtökum. Þegar vinstrimenn nota orðið frelsi, þá eru þeir gjarnan að nota það yfir allt annað hugtak en hægri menn. Til dæmis ritaði Kristinn Már Ársælsson grein fyrir nokkrum dögum á frelsi.is þar sem hann lýsir þeim "neikvæða" skilningi sem hægrimenn leggja í frelsishugtakið. Var hann þar að svara grein Hrannar Guðmundsdóttur á politik.is þar sem hún lýsti þeim skilningi, eða skilningsleysi, sem vinstrimenn leggja gjarnan í tíðrætt orð. Lýsir hún þar að í raun þýði frelsi ekki neitt ákveðið, heldur sé hægt að leggja í það einhvern víðari skilning. Það merkir þó aðeins að Hrönn leggur fleiri en eitt hugtak við orðið frelsi, og greinir ekki á milli þeirra. Munurinn á Hrönn og Kristni má segja er að Kristinn stígur öðrum fæti í gryfju tvíræðnirökvillunnar, en Hrönn fleygir sér ofan í og makar sig upp úr henni.

Maður heyrir þá spurt hvort sé nokkuð til ótvíræð og hlutlæg merking frelsis, hvort hægt sé að forðast tvíræðni ef maður á annað borð notar orðið. Hún er svo sannarlega til, og það er að sjálfsögðu hægt. Spurningar um svona og hinsegin frelsi eru aðeins orðaleikur, en styrkleiki alls tungumáls er að merkingar hugtaka geta verið, og verða að vera, ótvíræðar. Fyrst verðum við að gefa okkur að ótvíræð merking er alltaf háð samhengi. Og ef við gefum okkur rétt samhengi þá fáum við aðeins eina ótvíræða merkingu.

Frelsi í pólitísku samhengi

Í samhengi samfélags manna hvern við annan, og þar með í samhengi um hlutverk ríkisvaldsins, hefur frelsið aðeins eina hlutlæga merkingu og hefur haft þessa sömu merkingu í samræðum og ritum manna um stjórnspeki og pólitík í gegnum aldirnar.

Frelsið er það sem er sjálfgefið hverjum manni. Með öðrum orðum er maðurinn frjáls án nokkurra annarra forsenda en að vera lifandi. Það er það sem menn eiga við þegar þeir tala um neikvæða merkingu frelsis. Frelsið þarfnast einskis, það er sjálfgefið. Til að vera frjáls þarf maðurinn ekkert aukalega. Bjagaðar og tvíræðar merkingar frelsis tala um frelsi til að hafa ákveðna hluti, eða frelsi til að gera eitt og annað. En raunverulegt ótvírætt frelsi í pólitísku samhengi merkir að vera laus. Laus við beitingu valds af hendi annarra manna, konunga eða ríkisstjórna. Að vera sjálfráða. Forræði frjáls manns yfir sjálfum sér er þar með algjört.

Þetta er alls ekkert háfleygt, huglægt eða gufukennt hugtak, heldur á erindi í daglegu lífi í raunveruleikanum. Þetta er ekki kenning, heldur athugun. Menn upplifa frelsið mjög raunverulega dagsdaglega. Íslendingar til dæmis lifa við það frelsi að geta ákveðið sjálfir hvort og hvar þeir búa á Íslandi. Þeir geta ákveðið sjálfir hvar þeir vinna og við hvað. Íslendingar eru vanir frelsinu. Frelsið er nefnilega þannig að maður tekur gjarnan ekkert eftir því fyrr en maður rekst á takmarkanir á því.

Frelsi, ábyrgð og réttlæti

Oft spyrja menn hvort eigi að vera frelsinu einhver takmörk. En frelsið setur sín eigin takmörk. Með öðrum orðum takmarkast frelsið við frelsið sjálft. Frjáls maður er fyllilega ábyrgur gagnvart öðrum frjálsum mönnum fyrir gjörðum sínum og orðum. Eðli málsins samkvæmt getur hann ekki skírskotað ábyrgð til annarra, því hann er sjálfur æðsti ráðamaður eigin ákvarðana. Maður sem lýtur engum þvingunum né kvöðum að sér forspurðum getur ekki kennt öðrum um eigin misgjörðir.

Frelsi eins takmarkast því aðeins við frelsi annarra, við það að beita aðra menn þvingunum, enda er það skilgreining frelsis að vera laus við þvinganir. Frjáls maður sem þannig brýtur á frelsi annars er ábyrgur fyrir því broti. Sá einstaklingur sem brotið er á á því tilkall til gjalds, eða fórnar frelsinu ella. Það kallast réttlæti. Og þar komum við að öðru orði sem flýtur manna á milli með mismunandi merkingum bæði til vinstri og hægri.

Comments: Post a Comment

Powered by Blogger